Frá töku til löndunar
Ástæða þess að laxfiskar taka agn er ekki alltaf sú sama. Silungur tekur agn sem æti en fyrir laxinum vakir yfirleitt annað. Laxinn gengur í ár til hrygningar en ekki til ætisleitar. Hugh Falkus nefnir að vísu dæmi af eigin reynslu í bók sinni um laxveiðar að sex punda lax hafi tekið gyðlu dægurflugunnar í þeim mæli að úr maga hans hafi komið tvenn handfylli (2, 31). Dæmi sem þetta eru undantekning.
Reglan er sú að magi laxins er tómur þegar hann kemur í ána enda nægir að blóðga hann. Hins vegar er nauðsynlegt að taka meltingarveginn úr silungi til þess að forða því að magafyllin skemmi kjöt fisksins. Mikið hefur verið skrifað um það af hverju laxinn tekur agn veiðmanna fyrst hann nærist ekki í ánni eftir göngu úr sjó. Enginn veit það með vissu en nokkrar skýringar hafa verið nefndar. Fyrst, þegar lax gengur í á, þarf hann að hrista af sér sníkjudýr, lúsina (Lepeophtheirus salmonis), sem leggst á hann í sjó. Þessu verki lýkur hann á fyrstu tveimur sólarhringum í ánni. Á þessum tíma er nýkomni laxinn einnig að finna sér stað í goggunarröðinni. Hún gildir ekki bara í hænsnakofanum. Lax þekkir einnig sinn virðingarstiga.
Þetta er óróleikatími í ánni og þá lætur laxinn oftar glepjast af flugum veiðimanna. Nýgenginn lax er auðveiddari bráð en leginn lax af þessum sökum. Laxinn verður erfiðari viðureignar þegar líður á veiðitímann. Hann sinnir jafnvel engu og lætur sér fátt um finnast. Veiðimönnum tekst samt að æsa hann til töku. Stundum virðist laxinn leika sér að agninu eða færa það úr stað, hreinsa í kringum sig. Sú snyrtimennska kemur honum þó oft í koll þar sem hann kann að festast á öngulinn. Þreytuviðbrögð við langvinnu áreiti og ósjálfráð fæðuviðbrögð eru einnig nefndar sem skýringar. Þegar líða tekur á haustið ver laxinn ríki sitt af meiri festu og verður árásargjarnari. Veiðmenn komast þá upp með að sýna honum meiri dónaskap, ráðast með boðflennum inn í ríki hans og fá hann til þess að ráðast á agnið.
Þótt laxinn sé auðveiddari á haustin vantar orðið mikið á að grútleginn lax sé góður matfiskur. Veiðmenn gerðu þess vegna gott með því að sleppa þessum fiski aftur í ána eða sleppa því að veiða laxinn á þessum árstíma og snúa sér fremur að sjóbirtingi sem gengur ferskur úr sjó fram undir jól.
Margir veiðimenn eru töluvert hjátrúarfullir hvað varðar árnaðaróskir þegar haldið er til veiða. Þessi hjátrú virðist einnig rík í Noregi þar sem kveðjuorðin „skitt fiske“ fylgja veiðimönnum. Kveðjuorð frænda okkar á Englandi, „tight lines“, eru hins vegar miklu gagnlegri leiðsögn til eftirbreytni. Við upphaf veiði ætti að strekkja vel á taumnum og taumefninu þannig að það falli í beina línu frá flugulínunni. Sérstakir línustrekkjarar eru gagnlegir til þessa verks.
Þá skiptir máli að flugulínan sjálf leggist slétt á vatnið. Þegar veitt er með sökklínu er best að flugulínan sökkvi í beina línu og hraðast næst flugunni eins og sökklínurnar frá Northern Sport gera.
Sumar flugulínur sökkva hraðast um línuna miðja og myndast þannig mikill slaki á línunni. Þá má ekki gleyma að taumurinn verður að sökkva með línunni en má ekki fylgja á eftir þannig að flugan sé ofar flugulínunni í vatninu.
Línustrekkjari Beinsökkvandi sökklína
Staðreyndin er sú að margir veiðmenn verða einungis varir við brot af þeim silungi sem tekur flugu þeirra fyrir sakir slaka á línunni. Fiskurinn tekur fluguna og spýtir henni út úr sér án þess að veiðmaður verði þess var vegna slakans. Sumir veiðimenn veiða þess vegna með tökuvara í stöðuvötnum til þess að greina betur hárfínar tökurnar og geta brugðist skjótt við. Um leið og tökuvarinn hættir örstutt að reka í straumvatni, eða sekkur örlítið í stöðuvatni, er brugðist við. Þess vegna er mikilvægt að eyða öllum slaka á línunni. Slakinn á einungis við í þurrfluguveiði í straumvatni en slakinn tryggir að rek flugunnar verði eðlilegt. Línan má ekki toga í þurrfluguna. Þá verður rekið óeðlilegt. Á meðfylgjandi myndum eru sýndir tökuvarar frá Loon og Marryat sem gefast vel og eru auðveldir í notkun.
Tökuvari frá LOON:
Tökuvari frá Marryat.
Ný útgáfa af tökuvara er hins vegar töluverð framför. Þessa tökuvara er hægt að nota aftur og aftur. Taumurinn fellur í raufina og efri hlutinn er skrúfaður á. Minnsta útgáfan af þessum tökuvara er afar hentug í silungsveiði og skapar ekki mikla loftmótstöðu þegar línu með þessum tökuvara er kastað:
Þegar silungur er veiddur á votflugur, púpur og gyðlur (nymfur) er nauðsynlegt að lyfta stönginni fljótt og ákveðið til þess að ná fiskinum áður en hann spýtir flugunni út úr sér. Í laxveiðinni á allt annað við. Þar er stönginni lyft rólegar. Laxinn er látinn festa sig sjálfur.
Veiðmenn, sem hafa tamið sér ósjálfráð viðbrögð í silungsveiðinni frá því snemma vors, eiga oft erfitt með að halda aftur af sér þegar þeir hefja laxveiðina. Þeir þurfa þó ekki að kippa út úr mörgum löxum áður en þeir róast. Þegar lax er veiddur á gárutúpur, eða aðrar flugur sem eru látnar skauta yfir vatnsflötinn, gildir það sama, að lyfta einungis stönginni og strekkja á línunni. Viðbrögðin eru þau sömu þegar silungur er veiddur á smærri þurrflugur. Telja þarf upp að þremur og bregða svo við. Ástæðan er sú að fiskurinn sogar fluguna til sín og er þá með munninn opinn, að sjálfsögðu. Ef brugðist er við áður en fiskurinn lokar munninum kippist flugan út úr honum.
Silungur tekur straumflugur hins vegar yfirleitt mjög ákveðið enda eru þær oft eftirlíkingar af sílum og smáfiski sem silungurinn ræðst á og gleypir af áfergju. Í veiði er best að halda stangarendanum rétt yfir yfirborðinu þar til fiskur tekur. Ef stönginni er haldið hátt myndast slaki á línunni sem gerir erfitt fyrir þegar bregðast þarf við fiskinum. Stangarendinn má nema við vatnsborðið, jafnvel fara aðeins ofan í vatnið.
Í veiðþáttum og í auglýsingum má stundum sjá veiðmenn lyfta stönginni eins hátt til himins og þeir geta þegar fiskur tekur. Stönginni er síðan haldið uppréttri og aftarlega, kengbeygðri. Þetta eru „stjörnustælar“ sem ég mæli ekki með. Ætlunin er ekki að lyfta fiskinu upp úr vatninu og flugustöngin er lélegt tæki til þess. Þessi aðferð er einnig afkastalítil í þeim tilgangi að þreyta fisk. Loks eykur hún líkur á að stangartoppurinn brotni. Hann þolir einungis takmarkaða sveigju og þeim mun minni ef einhverjar rispur eru á toppstykkinu sem veikja það. Ekki skal halda stangarendanum beint upp. Hann á þó að vera boginn.
Nær vatnsfletinum togar línan í fiskinn sem reynir að synda á brott. Það þreytir fiskinn. Í straumvatni er rétt að reyna að komast sem fyrst niður fyrir fiskinn þannig að hann syndi upp í strauminn. Þegar fiskurinn þarf bæði að kljást við andstreymi og togast á við veiðimann þreytist hann fyrr. Þá setur það fiskinn úr jafnvægi að breyta átakinu frá einni hlið til annarrar með því hreyfa stöngina í láréttari stöðu þannig að vinstri hliðin sé næst vatnsfletinum um tíma en svipta sönginni síðan yfir þannig að hægri hliðin snúi að vatnsfletinum og átakið komi um tíma úr gagnstæðri átt. Þessar 180º sveiflur þreyta fiskinn og koma honum úr jafnvægi. Þótt fiskur sé nánast samfelldur vöðvi er hann ekki skapaður fyrir átak frá hlið. Hliðarátakið virkar þó ekki endalaust og þeim mun verr sem fiskurinn fjarlægist. Þá er nauðsynlegt að lyfta stönginni til þess að ná línunni af vatnsfletinum.
Í sjóstangveiðinni gilda aðrar aðferðir enda eru aðstæður annars konar. Þar er fiskinum yfirleitt náð inn með því að toga fiskinn nær með því að lyfta stönginni. Stöngin er síðan látin síga á ný. Slakanum á línunni, sem myndast þegar stöngin sígur, er spólað inn eins hratt og unnt er um leið og stöngin er látin síga. Þetta er endurtekið aftur og aftur uns fiskurinn er kominn svo nálægt bátnum að honum má ná í háf. Þeir, sem veiða á kaststangir og lengri tvíhendur, nota einnig þessa aðferð. Í slíkum tilvikum er oftar veitt á stærri öngla og þungar línur og auðveldast að beita stönginni þannig.
Styrkleiki taumefnis miðað við sverleika hefur aukist verulega hin síðari ár. Í þessu sambandi má sérstaklega benda á Frog Hair-taumefnið frá Gamma.
Nú er framleitt það grannt taumefni en samt af þeim togstyrk að unnt er að taka mjög fast og ákveðið á fiski án þess að taumurinn bresti. Taumefnið þolir vel jafnt og þungt átak. Þar eru snöggir rykkir sem slíta tauminn. Mikilvægt er að þreyta fisk sem minnst ef ætlunin er að sleppa honum. Þar kemur sterkt taumefni að góðum notum. Helst ber að varast að fara of neðarlega í sverleika þar sem vel tenntur urriði getur auðveldlega bitið í sundur grannan taum. Sverari taumur er þannig stundum kostur. Engin ástæða er t.d. til þess að nota grennri taumefni en að sverleika 0X þegar veitt er á straumflugur í straumvatni. Fiskurinn sér tauminn ekki. Í stöðuvatni hefur fiskurinn meiri tíma og þar getur skipt meira máli að nota taumefni sem fiskurinn sér ekki. Fluorocarbon-taumefni endurkastar ljósi eins og tært vatn en fölgrænt Kamasan-taumefni getur hentað betur þegar meiri gróður er orðinn í vatni þegar líður á sumarið.
Kamasan-taumefni.
Þegar stór fiskur tekur er mikilvægt að ná sem fyrst allri lausri línu inn á hjólið. Auðveldast er að gefa fiskinum aðeins lausan tauminn þegar hann hefur tekið fluguna örugglega. Smásprettur eyðir öllum slaka. Það getur þó verið of seint að gæta að stillingu á hemluninni eftir tökuna. Stillingin ætti að vera hæfileg miðað við sennilega stærð fisksins sem kann að taka fluguna. Síðan má auka hemlunina varlega eftir að fiskurinn tekur. Ef hemlunin er hins vegar í botni eru líkur á að fiskurinn slíti sig lausan þar sem ekkert gefur eftir. Minni silung má hins vegar taka inn á línunni sjálfri. Það er oftast auðveldara, og fljótlegri og betri leið til þess að halda línunni strekktri, en að ná henni inn á hjólið. Þá vill slaki gjarnan koma á línuna sem nægir silungi til þess að sleppa.
Þegar stærri fiskur er þreyttur á það sérstaklega vel við að halda stönginni lágt. Þá glímir fiskurinn við sterkasta hluta stangarinnar. Alltaf er mikilvægt að eyða slaka á línunni, boðorðið um „tight lines“ gildir. Nái fiskur að synda langt frá veiðimanni er rétt að halda stönginni hátt til þess að ná línunni af vatninu á meðan reynt er að stytta bilið milli veiðmanns og fisks. Mikilvægt er að lækka risið á stönginni strax ef fiskur stekkur svo að hann slíti sig ekki lausan. Sleppi laxinn er ekki öll von úti. Ég hef veitt aftur lax, sem slapp, korteri síðar á sama stað. Eini munurinn var að nú veitti nýgenginn, lúsugur laxinn enga mótstöðu, enda uppgefinn eftir fyrri viðureign.
Stundum nær fiskurinn, einkum lax, yfirtökunum með því að koma sér í aðstæður þar sem veiðimaður getur ekki togað fiskinn til sín hvað svo sem hann reynir. Í stað þess að togast á við fiskinn, uns flugan er toguð út úr honum, má reyna þolinmæðina. Gefa má fiskinum lausan tauminn og bíða þess að hann syndi á tökustaðinn. Þá má hugsanlega hefja viðureignina á ný ef fiskurinn var vel tekinn og er enn á önglinum.
Silung er þægilegt að fanga í hálf. Þetta á sérstaklega við í vatnaveiði þegar vaða þarf langt út eða erfitt er að landa. Í laxveiðinni er hins vegar heppilegast að sjá sem fyrst út heppilegan stað til þess að landa laxinum og þreyta hann þar til hann liggur á hliðinni í flæðarmálinu. Þá má koma aftan að fiskinum, sporðtaka hann og bera hann á þurran stað þar sem leggja má stöngina frá sér. Veiðimenn sjást of oft rennbleyta fluguhjólið þegar þeir leggja frá sér stöngina við löndun á fiski. Vonandi þurrka þeir undirlínuna eftir veiðiferðina. Hún fúnar annars og getur orðið til einskis nýt í síðari veiðiferðum. Þá er viðbúið að sá stóri taki loksins og syndi á brott með alla flugulínuna.
Þetta er sagt miðað við að tilgangurinn sé að halda veiddum fiski. Að sleppa veiddum fiski er rætt í annarri grein sem finna má hér á heimasíðunni. Í myndskeiðum af laxveiði má oft sjá tvo veiðifélaga hjálpast að við löndun á laxi. Þá mundar veiðifélaginn skaftlangan háf og veður út í ána. Ég geri ekki athugasemdir við þessa netaveiði ef ætlunin er að sleppa laxinum og netið í háfnum er hnútalaust þannig að það skaðar ekki hreistur laxins. Ef markmiðið er að rota laxinn, ber að gera það fljótt og fumlaust. Allir veiðimenn ættu að eiga rotara (e. priest = prestur) til þess að aflífa fiskinn, veita honum náðarhöggið. Bráðinni ætti að sýna meiri virðingu en svo að fiskurinn nánast kafni á meðan leitað er að lausu grjóti til þess að rota hann. Fiskur líður fyrir skort á súrefni mun fyrr en við mennirnir. Bráðin á ekki að þurfa að kveljast að óþörfu.
Heimildir og frekari lesning:
(1) Arnold, P. (1998). Wisdom of the Guides. Rocky Mountain trout guides talk fly fishing. Portland: Frank Amato Publications, Inc.
(2) Falkus, H. (1985). Salmon Fishing. A practical guide. London: H.F. & G. Witherby Ltd.
(3) Leeson, T. (2007). „Fighting the Good Fight“, Fly Rod & Reel. November/December issue 2007.
Árni Árnason © ÁRVÍK september 2024