Miðvikudaginn 29. febrúar 2012 verður ÁRVÍK hf. með kynningu á ýmsum vörum til fluguveiði í Árósum, húsakynnum Ármanna í Dugguvogi 13. Kynntar verða ýmsar nýjungar sem verða fáanlegar í verslunum nú í sumar. Húsið opnar kl. 20:00. Við komuna fá gestir aðgöngumiða, án endurgjalds, og er hann jafnframt happdrættismiði. Verður dregið í happdrættinu í lok kynningar. Á kynningunni verða sýndar Aquaz-vöðlur frá Aqua Sport í Kóreu sem koma í sölu í vor. Nýjungar í þeim vöruflokki eru vöðlur sem er til hálfs neoprene og úr öndunarefni, mittisvöðlur og neoprene-vöðlur fyrir skó en slíkar vöðlur hafa ekki verið fáanlegar lengi. Einnig verða sýndar nokkrar gerðir af öndunarvöðlum. ÁRVÍK hefur hafið sölu á flugulínum frá Northern Sport í Kanada. Þessar línur hafa verið reyndar við íslenskar aðstæður með góðum árangri. Línurnar eru á mjög hagstæðu verði miðað við flugulínur og einkum þegar litið er til gæða. Þær henta sérstaklega vel til veiða á norðurslóðum þar sem vatns- og lofthiti er stundum í lægri kantinum eins og er hér á landi. Þá verða kynntar flugustangir frá Scott og Wychwood, og töskur frá Wychwood og Fishpond auk nokkurra annarra vara. Í lok kynningarinnar fer happdrættið fram undir styrkri stjórn eina mannsins sem hefur full réttindi til þess að stýra happdrætti á vegum Ármanna. Fyrstu verðlaun verða Aquaz-vöðlur að eigin vali. Önnur verðlaun eru Truefly-fluguhjól í gjafaöskju með tveimur aukaspólum. Þriðju verðlaun eru Catch-veiðigleraugu með þremur skiptanlegum linsum. Fjórðu verðlaun eru silungaháfur frá Leeda og silungapoki og loks eru það fimmtu verðlaunin en þau eru flugulína frá Northern Sport að eigin vali. Hlaupársdagur kemur ekki nema á fjögurra ára fresti en hann gæti orðið sumum félögum Ármanna happafengur í ár.